Innlent

Enn vonskuveður víða á landinu

Steinveggur og steypumót fuku á hliðina í Vík í Mýrdal.
Steinveggur og steypumót fuku á hliðina í Vík í Mýrdal. MYND/Sigurður Hjálmarsson

Tveir þriggja bíla árekstrar urðu með stuttu millibili um áttaleytið í morgun í umdæmi lögreglunnar á Selfossi.

Í fyrra tilvikinu varð óhapp við brúna við Þrastarlund í Grímsnesi en þar snerist bíll hálkunni og lenti á öðrum sem kom á móti. Sá þriðji sem kom aðvífandi hafnaði svo á hinum tveimur. Engan sakaði í óhappinu. Þá varð þriggja bíla árekstur í Kömbunum og þar urðu heldur ekki slys á fólk. Lögregla segir færðina með ágætum en blint sé og rok töluverð hálka á vegum.

Vegagerðin varar enn við vonskuveðri víða um land og slæmri færð. Þannig er vonskuveður vestan Víkur, miklar vindhviður og blint og þar er beðið með mokstur. Svo hvasst var í Vík í morgun að steinveggur og steypumót við nýbyggingu fuku á hliðina. Á Suðausturlandi er ekki fyrirstaða á vegum en óveður við Lómagnúp.

Vegagerðin bendir á að hálka og skafrenningur sé á Hellisheiði og í Þrengslum líkt og víða um Suðurland. Þá eru hálkublettir á Reykjanesbraut og á Suðurnesjum.

Á Vesturlandi er búið að moka Hvalfjörð og Bröttubrekku. Þungfært er á Skógarströndinni. Á Vestfjörðum er ófært um Eyrarfjall og frá Brjánslæk suður yfir Klettsháls. Hálka og skafrenningur er á flestum öðrum leiðum.

Á Norðurlandi er stórhríð á Þverárfjalli og eins milli Blönduóss og Skagastrandar. Þá er óveður á Mývatns- og Möðrudalsöræfum og vegur ófær yfir fjöllin. Á Austurlandi er veður enn slæmt. Ófært er yfir Fjarðarheiði, Fagradal og Oddsskarð. Komu björgunarsveitarmenn ökumönnum á nokkrum bílum til aðstoðar á Fagradal þar sem þeir sátu fastir um 25 kílómetra frá Egilsstöðum í morgun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×