Innlent

Vonskuveður og slæm færð víða á landinu

MYND/GVA

Vegagerðin varar við vonskuveðri um mestallt land og segir færðina víða slæma. Sérstaklega er varað við að ekki sé ferðaveður í Öræfasveit vegna hvassviðris og sama er að segja um Mývatns- og Möðrudalsöræfi, sem og Hólasand.

Þá er hálka og töluvert mikill skafrenningur á Hellisheiði og í Þrengslum líkt og víða um Suðurland. Það sama er að segja um Reykjanesbrautina og Suðurnes.

Á Vesturlandi er Brattabrekka ófær en þæfingsfærð er á nokkrum leiðum í Hvalfirði, Borgarfirði og á Snæfellsnesi. Stórhríð er á Laxárdalsheiði og í botni Hvammsfjarðar. Svínadalurinn er ófær. Þá er ófært milli Reykhólasveitar og Flókalundar en þungfært um Kleifaheiði, Mikladal og Hálfdán. Búið er að opna milli nágrannabyggða Ísafjarðar og mokstur er hafinn í Ísafjarðardjúpi og á Ströndum.

Á Norðurlandi er stórhríð á Vatnsskarði og eins milli Blönduóss og Skagastrandar og á Þverárfjalli. Þá er óveður á Mývatns- og Möðrudalsöræfum og vegur ófær yfir fjöllin. Á Austurlandi er víðast hvar mikil snjókoma, Fjarðarheiði er ófær en þungfært er yfir Oddsskarð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×