Innlent

REI-málið stærsta fjölmiðlamál síðasta árs

Gísli Marteinn Baldursson, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, og Björn Ingi Hrafnsson, borgarfulltrúi Framsóknarflokksins, skömmu áður en leiðir skildi í borgarstjórn.
Gísli Marteinn Baldursson, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, og Björn Ingi Hrafnsson, borgarfulltrúi Framsóknarflokksins, skömmu áður en leiðir skildi í borgarstjórn. MYND/Pjetur

REI-málið var stærsta fjölmiðlamál síðasta árs samkvæmt könnun sem Capacent Gallup gerði fyrir Creditinfo Ísland. Þannig sögðust rúm 18 prósent sem tóku afstöðu að REI-málið væri stærst en næst á eftir komu borgarstjóraskiptin í kjölfarið með um 15 prósent.

Í tilkynningu frá Creditinfo segir að í raun hafi það verið alþingiskosningarnar sem í magni hafi flokkast sem stærsta fjölmiðlamál ársins 2007 því á kosningavikunum í apríl og maí birtust 3.857 fréttir og blaðagreinar um kosningarnar og íslensk stjórnmál. Til samanburðar á þessum fjölda má nefna að alls voru fluttar 1.022 fréttir um Reykjavík Energy Invest allt árið í fyrra og þar af tengdust 76 prósent af þeirri umfjöllun hinu svokallaða REI-máli.

Baugsmálið var þriðja stærsta málið en rúm sex prósent aðspurðra töldu það stærsta mál ársins í fyrra. Þetta er afgerandi breyting frá árinu á undan þegar ríflega 37 prósent þeirra sem tóku afstöðu töldu Baugsmálið stærsta fjölmiðlamálið. Á eftir Baugsmálinu koma svo alþingiskosningarnar og svo Lúkasarmálið. Alls birtu fjölmiðlar á landsvísu 63 fréttir af Lúkasarmálinu en Fjölmiðlavakt Creditinfo vaktaði ekki bloggsíður um það mál.

Við könnun Gallup var leitað til 1305 manna á aldrinum 16-75 ára og var svarhlutfall 61,3 prósent. Könnunin var gerð dagana 3.-16.janúar sl.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×