Innlent

Ólafur Hjálmarsson nýr hagstofustjóri

Geir H. Haarde forsætisráðherra hefur skipað Ólaf Hjálmarsson, skrifstofustjóra fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytisins, í embætti hagstofustjóra til næstu fimm ára frá 1. mars.

Fram kemur í tilkynningu frá ráðuneytinu að Ólafur sé fæddur árið 1957 og hafi bæði cand. oecon. próf frá viðskiptadeild Háskóla Íslands og MA-gráðu í þjóðhagfræði frá York University í Toronto. Ólafur hefur verið skrifstofustjóri í fjármálaráðuneytinu frá árinu 1999.

Staða Hagstofu Íslands breyttist um síðustu áramót þegar hún hætti að vera sjálfstætt ráðuneyti og varð að sjálfstæðri stofnun sem heyrir undir forsætisráðherra. Hagstofan er miðstöð opinberrar hagskýrslugerðar í landinu og hefur forystu um tilhögun, samræmingu og framkvæmd hennar.

Alls sóttu níu manns um starf hagstofustjóra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×