Innlent

KÍ spyr hvort enn standi til að stytta stúdentspróf

MYND/GVA

Kennarasamband Íslands gagnrýnir að nýtt frumvarp menntamálaráðherra til framhaldsskólalaga tilgreini ekki einingafjölda eða námstíma til stúdentsprófs. Segir meðal annars í umsögn sambandsins um frumvarpið að ekki megi ráða af því hvort fyrri áform um að stytta námstíma til stúdentsprós og þannig skerða námið lifi enn. Mikið var deilt um þau áform á sínum tíma og var á endanum fallið frá þeim

Frumvarpið byggist að hluta til á vinnu starfshópa sem komið var á fót í framhaldi af 10 skrefa samkomulagi KÍ og menntamálaráðherra. Segir í umsögn Kennarsambandsins að margt sé jákvætt í frumvarpinu en sambandið gerir engu að síður athugasemdir við mörg atriði og telur að margt í efni frumvarpsins þarfnist frekari skýringa og úrvinnslu.

Sambandið telur að framhaldsskólapróf og fræðsluskylda til 18 ára aldurs séu mikilvæg og vill að fræðsluskyldan feli í sér skilgreindan rétt nemenda til framhaldsskólavistar í grennd við heimili sitt sem myndi t.d. gagnast nemendum á höfuðborgarsvæðinu sem fá ekki skólavist í sínu hverfi.

Þá fagnar sambandið því að að íslenskt stúdentspróf verði áfram almennt og víðfeðmt og jafnframt að aukinn sveigjanleiki og fjölbreytni verði í námsinntaki og námsframboði til stúdentsprófs. „Vegna þess að frumvarpið tilgreinir hvorki einingafjölda né námstíma til stúdentsprófs er ekki hægt að ráða af því hvort fyrri áform um að stytta námstímann og þar með að skerða námið lifa enn. Því leggur KÍ til að kveðið verði á um fjölda námseininga til stúdentsprófs í nýjum lögum og Alþingi taki af öll tvímæli um að fyrri áform um styttingu námstíma og skerðingu náms hafi verið ýtt til hliðar," segir í tilkynningu KÍ vegna umsagnarinnar.

Enn fremur undirstrikar Kennarasambandið að ekki hefur verið sýnt fram á fagleg gildi þess að breyta núverandi einingakerfi framhaldsskólanna og taka upp svokallaðar ECTS-einingar. Þá telur Kennarasambandið að engin efnisleg rök komi fram í frumvarpinu fyrir lengingu skólaársins önnur en þau sem birtust í skýrslunni Breytt námsskipan til stúdentsprófs (2004) og tengdust áformum um að stytta námstíma til stúdentsprófs m.a. með því að skerða námið. „En í þessu sambandi minnir Kennarasambandið á að menntamálaráðherra hefur lýst því yfir opinberlega , eftir að framhaldsskólafrumvarpið var lagt fram, að umrædd skýrsla og efni hennar hafi verið lagt til hliðar," segir KÍ

KÍ er enn fremur andvígt breytingum sem frumvarpið leggur til að gert verði á vald- og verksviði kennarafunda og telur að í tillögum um skólanefndir sé farið úr öskunni í eldinn þar sem ekki er lengur tryggt að kennarar eigi þar áheyrnarfulltrúa.

Í niðurlagi umsagnar KÍ um framhaldsskólafrumvarpið segir að stjórnvöld verði að setja fram skýr áform um að auknar fjárveitingar til framhaldsskólanna í samræmi við áherslur frumvarpsins á aukna þjónustu við nemendur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×