Innlent

50 MS-sjúklingar fá Tysabri í ár

Reiknað er með að 50 MS-sjúklingar fái lyfið Tysabri á þessu ári samkvæmt svari heilbrigðisráðherra við fyrirspurn Jóns Björns Hákonarsonar, varaþingmanns Framsóknarflokksins.

Notkun lyfsins hófst hér á landi um miðjan janúar og verður aðeins gefið á Landspítalanum. Þá kemur fram í svari ráðherra að viðbótarkostnaður vegna þessarar lyfjameðferðar sé áætlaður rúmlega 100 milljónir krónar á þessu ári.

Tysabri var nýlega veitt markaðsleyfi hér á landi en það dregur verulega úr virkni MS-sjúkdómsins og hefur borið góðan árangur erlendis. Bent er á í svari ráðherra að það muni taka næstu mánuði að hefja meðferð hjá öllum sem eiga að fá lyfið, þar sem ekki sé hægt að sinna öllum samtímis. Önnur lyf verða áfram gefin við MS-sjúkdómnum þar sem viss hluti sjúklinga bregðist vel við þeim og því er talið ástæðulaust að breyta þeirri meðferð.

„Meðferð með Tysabri fer þannig fram að sjúklingur kemur á fjögurra vikna fresti inn á sjúkrahúsið og fær lyfið í æð. Það tekur um klukkustund. Viðkomandi dvelur þó á sjúkrahúsinu í nokkra tíma í senn undir eftirliti hjúkrunarfræðinga og lækna vegna hugsanlegra aukaverkana," segir enn fremur í svarinu ráðherra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×