Innlent

Norrænu ríkin hætta við bóluefnisverksmiðju vegna fuglaflensu

MYND/AP

Norrænu ríkin hafa hætt við áætlanir sínar um að byggja sameiginlega bóluefnisverksmiðju vegna hugsanlegs heimsfaraldurs inflúensu. Löndin eru þó sammála um að þörf sé áframhaldandin samstarfi landanna um áætlanir gegn inflúensufaraldri.

Þetta kemur fram í sameiginlegri yfirlýsingu félags- og heilbrigðisráðherranna sem var út eftir fund þeirra í Stokkhólmi í gær. Í frétt frá Norðurlandaráði segir að Svíþjóð, Danmörk, Finnland, Noregur og Ísland séu ekki öll sannfærð um að nægileg tæknikunnátta sé til staðar til að hefja framleiðslu bóluefnis gegn inflúensu.

Löndin voru hins vegar sammála um fjögur atriði sem rædd voru á fundinum, það er sameiginlegar aðgerðir í málum þar sem sameiginlegra aðgerða eða afstöðu er þörf hvað varðar áætlanir til að koma í veg fyrir inflúensufaraldur, að starfa saman að greiningarvinnu á breytingum á bólusetningarsviðinu, að miðla reynslu milli landa af því að geyma inflúensubóluefni og miðla upplýsingum um meðhöndlun og geymslu bóluefnis gegn veirusýkingum.

Svíþjóð fer með formennsku í Norrænu ráðherranefndinni árið 2008. Haldin verður vinnustofa um áætlanir hvað varðar bóluefni og verður hún liður í því að auka og styrkja norrænt samstarf um aðgerðir til varnar inflúensufaraldri.

Í samnorræna hópnum sem stýrt er af Íslandi var einnig rætt um möguleika á auknu samstarfi hvað varðar markaðsleyfi fyrir lyf. Fulltrúi Íslands gerði grein fyrir tilraunaverkefni um málið, sem Svíþjóð og Ísland vinna að.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×