Innlent

Stjórnarandstöðusinni í Kenýa landflótta á Íslandi

Ástandið á götum Kenía hefur verið skelfilegt allt frá því að kosningar voru haldnar.
Ástandið á götum Kenía hefur verið skelfilegt allt frá því að kosningar voru haldnar.

Einn af kosningastjórum stjórnarandstöðunnar í Kenýa er landflótta á Íslandi. Hann segist hafa lent í hrikalegri reynslu í klóm kenýsku lögreglunnar og vera á aftökulista yfirvalda þar í landi.

Mikið uppnám var við heimili Mugabe Were, þingmanns stjórnarandstöðunnar í Kenýa, eldsnemma í morgun. Were var skotinn tveimur skotum í höfuðið. Hér á landi fylltist Paul Oduor skelfingu þegar hann fékk fréttirnar í símtali klukkan sex í morgun. Hann segir að Were hafi verið vinur sinn. Sjálfur lenti hann í klóm lögreglu snemma í þessum mánuði.

Paul er nýkominn til Íslands, en hann hefur tengsl hingað í gegnum störf sín fyrir ABC barnahjálp í Naíróbí. Hann segir að sér hafi ekki verið vært í Kenýa. Stjórnarandstæðingar hefðu fengið upplýsingar um að aftökulisti væri til, með nöfnum nokkurra manna, þeirra á meðal nafni hans. Frá Kenýa bárust fréttir í dag um enn frekari ættbálkamorð. Þyrlur skutu yfir höfðum manna, sem höfðu safnast saman í bænum Naivasha og ógnuðu fólki af luo ættbálknum. Lögregla kom fólkinu undan. Nú er talið að 850 manns hafi látið lífið í átökunum í Kenýa.

Kofi Annan fyrrum framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna fundaði síðdegis með fulltrúm stjórnar og stjórnarandstöðu í því skyni að koma í veg fyrir frekari upplausn í landinu.

En Mwai Kibaki forseti hefur staðfastlega neitað að ógilda kosningarnar 27. desember, og stjórnarandstæðingar segja að á meðan hann geri það geti ekkert komið í veg fyrir áframhaldandi blóðsúthellingar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×