Innlent

Umferðarslysum fækkar um nærri helming á áratug í borginni

Umferðarslysum í Reykjavíkurborg fækkaði um nærri helming á árunum 1996-2006 samkvæmt nýrri skýrslu framkvæmdasviðs borgarinnar. Þar kemur fram að árið 1996 hafi slysin verið 603 en tíu árum síðar voru þau 316. Þá fækkaði alvarlegum slysum einnig um helming, eða úr tæplega 80 í 40.

Fram kemur í skýrslunni að reglugerð um ökuferilskrá og punktakerfi sem innleitt var árið 1999 hafi haft marktæk áhrif til fækkunar á slysum, sérstaklega alvarlegum. Þá hafa ýmsar framkvæmdir eins og uppsetning umferðarljósa og gerð hringtorga og mislægra gatnamóta ásamt lækkun hámarkshraða í 30 kílómetra í hverfum einnig aukið umferðaröryggi.

„Þessar niðurstöður eru afar athyglisverðar og mikið fagnaðarefni fyrir okkur sem vinnum að því að bæta umferðarmenningu og öryggi almennings í umferðinni," segir Hrólfur Jónsson, sviðsstjóri Framkvæmdasviðs á vef Reykjavíkurborgar. Hann telur að niðurstöður skýrslunnar verði borginni og öðrum tvímælalaust hvatning til þess að leggja enn frekari áherslu á aðgerðir á þessu sviði.

Höfundur skýrslunnar, Stefán Finnsson verkfræðingur hjá Framkvæmdasviði, segir að af samanburði á fjölda slysa á Íslandi þar sem landinu er skipt í fjögur svæði megi draga þá ályktun að aðgerðir í Reykjavík hafi skilað meiri árangri til fækkunar umferðarslysa en sjá má á öðrum svæðum á landinu. „Í upphafi tímabilsins urðu 37,5 prósent alvarlegra slysa á landinu hér í Reykjavík en árið 2006 var hlutfallið aðeins 25,6 prósent. Þetta er veruleg breyting," segir Stefán.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×