Innlent

Nýmjólk miklu ódýrari hér en í Danmörku og Noregi

Því er haldið fram á vef Landssambands kúabænda að nýmjólk sé miklu ódýrari hér á landi en í Danmörku og Noregi. Vísað er til ferðar framkvæmdastjóra Landssambandsins til landanna tveggja þar sem hann kannaði verðið.

Landssambandið ber saman verð í Hagkaup og sams konar stórmörkuðum í Noregi og Danmörku. Samkvæmt útreikningunum er mjólkin nærri þriðjungi dýrari í Danmörku og 83 prósentum dýrari í Noregi. Þegar nýmjólkurverð í lágvöruverslunum er borið saman kemur í kjós að mjólkin er um fimmtungi dýrari í Danmörku og 73 prósentum dýrari í Noregi en hér. Bent er á að verðmunurinn sé meiri en svo að mismunandi virðisaukaskattur geti skýrt hann. Í Danmörku er virðisaukinn 25 prósent, 12 prósent í Noregi og sjö prósent á Íslandi.

Segir Landssamband kúabænda að verðdæmið sýni betur en flest annað af hve mikilli hörku verði á mjólkinni hafi verið haldið niðri hér á landi undanfarin ár. Afleiðingin af því sé m.a. hærra verð en ella þyrfti að vera á unnum mjólkurvörum, t.d. osti og jógúrt. Mismunur á framlegð einstakra vöruflokka sé þar af leiðandi orðinn meiri en búandi sé við. Það sé því brýnt hagsmunamál kúabænda að verðlagning á nýmjólk og skyldum vörum verði færð nær raunveruleikanum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×