Innlent

Dagur: Mogginn notar Ólaf F. sem skjöld í umræðunni

Dagur B. Eggertsson, fyrrverandi borgastjóri, sagði í Silfri Egils á Rúv í dag Morgunblaðið hafi kosið að nota Ólaf F. Magnússon sem skjöld í umræðunni um borgarmálin síðustu daga. Hann sagði að blaðið treysti sér ekki til þess að ræða kjarna málsins sem væri sá að með því að mynda meirihluta með Ólafi hafi Sjálfstæðisflokkurinn vikið öllum sínum hugsjónum frá og sett borgarstjórastólinn á uppboð. Hann sagði einnig að það hafi orðið að samkomulagi á milli Ólafs og skrifstofustjóra hjá borginni að hann skilaði inn læknisvottorði á sínum tíma.

Dagur benti á að flokkurinn væri í frjálsu falli í skoðannakönnunum, Morgunblaðið væri komið í nauðvörn og því sé tekið upp á því að „sulla aur" eins og hann orðaði það. „Samband okkar Ólafs hefur verið býsna náið og við höfum verið í daglegum samskiptum undanfarna mánuði og engan skugga borið á það. Þessvegna tek ég skrif moggans nærri mér," sagði Dagur. „Mogginn velur að gera Ólaf að vígvelli í pólitískum átökum á milli Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar," sagði Dagur og bætti við að sér fyndist að blaðið væri „löngu hætt að vera vant að virðingu sinni," og að hann tæki ekki þátt í slíku.

Egill spurði Dag út í læknisvottorð sem Ólafur lagði fyrir borgarstjórn þegar hann snéri aftur til starfa. Dagur taldi þar um miskilning að ræða. Ólafur hefði reglulega skilað inn vottorði á meðan á veikindaleyfi hans stóð eins og lög gerðu ráð fyrir. Það hafi svo orðið að einhverskonar samkomulagi á milli Ólafs og Gunnars Eydal, skrifstofustjóra hjá skrifstofu borgarstjórnar að hann legði einnig fram vottorð þegar hann snéri til baka úr leyfinu. „Ég hefði aldrei farið fram á að hann skilaði vottorði á þeim tíma."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×