Innlent

Sala á alifuglakjöti upp fyrir kindakjöt í fyrra

MYND/GVA

Kjötframleiðsla í landinu jókst um sjö prósent á síðasta ári frá árinu á undan samkvæmt bráðabirgðatölum. Þá reyndist sala á alifuglakjöti meiri en kindakjötssala í fyrsta sinn í sögunni.

Fram kemur á vef Bændasamtaka Íslands að framleiðslan hafi numið nærri 26.900 tonnum. Mest jókst framleiðsla á alifuglakjöti, eða um rúm 14 prósent á milli ára, og sala á hrossa- og nautgripakjöti jókst um ellefu prósent. Framleiðsla svínakjöts jókst um sex prósent en kindakjötsframleiðslan var óbreytt frá fyrra ári.

Heildarsala á kjöti jókst einnig á milli áranna 2006 og 2007, samtals um 6,3 prósent. Nam salan í fyrra alls rúmum 24.600 tonnum. Mest seldist af alifuglakjöti, 7.457 tonn, og er það í fyrsta skipti sem meiri sala er á annarri kjöttegund en kindakjöti á ársgrundvelli.

Þessu til viðbótar má benda á að mjólkurframleiðslan hefur aldrei verið meiri en í fyrra, eða nærri 125 milljónir lítra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×