Innlent

Kaffi Krókur var fyrsta fangageymsla Skagfirðinga

Eitt sögufrægasta hús í Skagafirði þar sem Kaffi Krókur var til húsa, gjör eyðilagðist í eldi í nótt.

Eldsins varð vart laust fyrir klukkan eitt eða aðeins klukkustund eftir að veitingamaðurinn yfirgaf húsið. Mikill eldur logaði í suður stafni hússins þegar slökkvilið Sauðárkróks kom á vettvang. Kallaður var út stór vörubíll með krabba til að rjúfa þakið svo komist yrði að eldinum á efri hæð hússins og dælt var vatni á eldinn með öllum tiltækum ráðum.

En þrátt fyrir allt er efri hæðin alveg bruninn og það sem eftir er af húsinu er talið gjör ónýtt. Síðari tíma viðbygging stendur enn. Slökkvistarfi lauk um klukkan þrjú í nótt. Eldsupptök eru enn ókunn.

Húsið var byggt á árunum 1880 til 1890 og var því nokkuð á annað hundrað ára gamalt. Það hefur hýst margvíslega starfsemi í áranna rás og í kjallara þess var meðal annars fyrsta svarthol eða fangageymsla Skagfirðinga.

Kaupfélag Skagfirðinga rak líka verslun og raftækjaverkstæði í húsinu um árabil svo eitthvað sé nefnt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×