Innlent

Stjórnarþingmenn þegja í dómaramálinu

Úr þingsal.
Úr þingsal. Mynd/ Pjetur.

Enginn þingmaður Samfylkingarinnar vill tjá sig við Vísi um afstöðu sína til skipunar Þorsteins Davíðssonar í embætti héraðsdómara. Einungis þrír þingmenn Sjálfstæðisflokksins svöruðu fyrirspurn Vísis um málið.

Vísir sendi fyrirspurn til allra þingmanna Samfylkingarinnar og Sjálfstæðisflokks í gær. Spurt var: „Telur þú að rétt hafi verið staðið að skipun nýs héraðsdómara við Héraðsdóm Norðurlands eystra og Héraðsdóm Austurlands?" Svar barst frá þremur þingmönnum. Þeim Sigurði Kára Kristjánssyni, Kristjáni Þór Júlíussyni og Kjartani Ólafssyni. Allir svöruðu þeir játandi.

„Almennt vilja þingmenn frekar gera grein fyrir afstöðu sinni í þinginu frekar en í fjöldafyrirspurnum frá fjölmiðlum," segir Lúðvík Bergvinsson, þingflokksformaður Samfylkingarinnar. Hann segir það verra ef menn séu búnir að gefa upp afstöðu sína í fjölmiðlum áður en þeir kynni sér málavexti og fjalli svo um málið í þinginu. Hann segir þó að afstaða sín sé skýr enda hafi hann gert grein fyrir henni í þinginu í gær. Þar sagðist hann vera ósammála ákvörðun setts dómsmálaráðherra í málinu.

Ekki náðist í Arnbjörgu Sveinsdóttur, þingflokksformann Sjálfstæðisflokksins, vegna málsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×