Innlent

Bæjarstjórn Seltjarnarness lækkar fasteignaskatt

Jónmundur Guðmarsson, bæjarstjóri á Seltjarnarnesi.
Jónmundur Guðmarsson, bæjarstjóri á Seltjarnarnesi.

Bæjarstjórn Seltjarnarness samþykkti í gær að lækka fasteignaskatt og vatnsskatt. Jafnframt var samþykkt sérstök 20% viðbótarhækkun á afslætti aldraðra og öryrkja af fasteignaskatti.

„Álagningarstuðull fasteignaskatts á íbúðarhúsnæði lækkar úr 0,24% í 0,18% af fasteignamati húsnæðis. Hefur hlutfall fasteignaskatts á Seltjarnarnesi því lækkað um nærfellt 25% á innan við ári. Hækkun fasteignamats á sama tíma er 16%. Álagningarstuðull vatnsskatts lækkar einnig úr 0,115% í 0,09% af fasteignamati og hefur þá lækkað alls um 22% á sama tímabili," segir í tilkynningu frá Jónmundi Guðmarssyni bæjarstjóra

Í tilkynningunni segir að þessar lækkanir sýni þá stefnu bæjaryfirvalda að koma til móts við skattgreiðendur í ljósi hækkandi fasteignamats og sé jafnframt ætlað að undirstrika mikilvægi skattalækkana í þeim kjaraviðræðum sem nú fara í hönd.

Samhliða þessu tók bæjarstjórnin ákvörðun um að koma sérstaklega til móts við fasteignaeigendur í hópi aldraðra og öryrkja með 20% hækkun tekjuviðmiðs á afslætti vegna fasteignaskatts. Aukin afsláttur nú kemur til viðbótar 20% hækkun afsláttar sem ákveðin var á síðasta ári.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×