Innlent

Ölvaður ók á sjúkrabíl

Um 40 umferðaróhöpp urðu í arfaslakri færð á höfuðborgarsvæðinu í dag. Langflest þeirra voru að sögn lögreglu þó ekki alvarleg.

Sérkennilegasta óhappið varð líklega um klukkan hálf sex í dag þegar bíl var ekið aftan á sjúkrabíl við Rauðarárstíg. Ökumaður bifreiðarinnar og farþegi hennar stukku um leið út úr bíl sínum og hlupu á brott. Sjúkraflutningamennirnir úr sjúkrabílnum veittu þeim hins vegar eftirför og náðu þeim skammt frá þar sem áreksturinn varð.

Lögregla mætti svo á svæðið og fór með mennina á lögreglustöð þar sem þeir eru nú vistaðir. Þeir eru báðir á fimmtugsaldri en ökumaðurinn er grunaður um að hafa verið ölvaður undir stýri.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×