Innlent

Hefur beðið eftir svari við fyrirspurn um útrásarmál í mánuði

MYND/GVA

Valgerður Sverrisdóttir, varaformaður Framsóknarflokksins, spurði á Alþingi í dag hvort útrásarmál orkufyrirtækja væru fjármálaráðherra og Sjálfstæðisflokknum of viðkvæm til þess að ráðherra gæti svarað fyrirspurn hennar.

Samkvæmt dagskrá Alþingis átti fyrirspurn hennar til fjármálaráðherra, þess efnis hvort ráðherra hygðist draga ríkisfyrirtækin Landsvirkjun og Rarik út úr útrásarverkefnum sem þau taka þátt í í samstarfi við einkaaðila, að vera tekin fyrir í dag. Fyrirspurninni var hins vegar frestað þar sem ráðherra var ekki viðstaddur.

Kvaddi Valgerður sér hljóðs undir liðnum fundarstjórn forseta og vakti athygli á því að fjármálaráðherra hefði ekki séð sér fært að svara fyrirspurninni þrátt fyrir að hún hefði verið lögð fram yfir mörgum mánuðum, eða um það leyti sem breytingar urðu á meirihluta í borgarstjórn Reykjavíkur.

Spurði Valgerður hvort fyrirspurnin væri of viðkvæm fyrir ráðherra og Sjálfstæðisflokkinn til að svara. Sturla Böðvarsson, forseti Alþingis, benti á að ráðherra væri með fjarvistarleyfi og yrði fyrirspurninni því ekki svarað nú.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×