Innlent

Brá þegar dópaðir menn réðust inn í íbúð í Bökkunum

Loftmynd af Bakkahverfinu í Reykjavík.
Loftmynd af Bakkahverfinu í Reykjavík.

Sara Rós Kavanagh segir að sér hafi brugðið mjög mikið þegar menn, undir áhrifum fíkniefna, réðust inn í íbúð hennar í Blöndubakka í Reykjavík. Þetta sagði hún í samtali við Í bítið á Bylgjunni.

Sara Rós var ein heima með börnin sín þrjú, tveggja ára dreng og tveggja mánaða tvíbura, þegar mennirnir réðust inn vopnaðir öxum. „Þeir sögðu bara hvar er fokking Addi eða eitthvað sko. Ég veit ekki hvernig ég má orða þetta," segir Sara. Hún telur að mennirnir hafi verið að leita að einhverjum tilteknum mönnum sem tengjast henni ekki. "Þeir voru mjög reiðir og alveg útúrdópaðir," segir hún.

Sara segir að mennirnir hafi hlaupið út eftir að eldri drengurinn hennar, sem er tveggja ára, hljóp í fangið á henni. „En ég veit ekki hvað þeir hefðu gert ef að barnið hefði ekki verið þarna."

Þetta eru ekki einu skakkaföllin sem Sara Rós og Sverrir Björn, eiginmaður hennar, hafa lent í að undanförnu, því að bílnum þeirra var stolið þann 4. janúar, en fannst gerónýtur daginn eftir. Sara segir að þjófarnir séu ekki fundnir. Hún segir að fjölskyldan hafi búið í Bakkahverfinu í eitt ár en aldrei lent í neinum skakkaföllum fyrr en í þessum mánuði.

Mennirnir voru handteknir í Arnarbakka.

Smelltu á hlekkinn hér til að hlusta á Söru Rós í þættinum Í bítið




Fleiri fréttir

Sjá meira


×