Innlent

Aflaverðmæti eykst um 6,5 prósent fyrstu tíu mánuði 2007

Aflaverðmæti íslenskra skipa jókst um 6,5 prósent á fyrstu tíu mánuðum ársins 2007 miðað við sömu mánuði árið 2006. Frá þessu er greint á vef Hagstofu Íslands.

Aflaverðmætið frá janúar til októberloka í fyrra nam 68,5 milljörðum króna en var 64,3 milljarðar árið áður. Aflaverðmæti í október var 6 milljarðar sem er sambærilegt við október 2006.

Aflaverðmæti botnfisks var í lok október orðið rúmur 51 milljarður króna miðað við rúma 48 milljarða á sama tíma árið 2006 og er um 6,4 prósenta aukningu að ræða. Verðmæti þorskafla var 25 milljarðar og jókst um 12 prósent á milli ára og aflaverðmæti ýsu jókst um tæpan fjórðung. Ufsaafli dróst hins vegar saman að verðmæti um 10,5 prósent og var verðmætið 3,5 milljarðar króna á fyrstu tíu mánuðum síðasta árs.

Auk þess dróst verðmæti flatfiskafla saman um 16,2 prósent en aflaverðmæti uppsjávarafla jókst um 16,5 prósent á milli ára og nam 12,4 milljörðum. Munar þar mestu um verðmæti loðnu sem nam 4,2 milljörðum samanborið við 2,2 milljarða fyrstu tíu mánuði ársins 2006.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×