Innlent

Vinnustundum karla fækkar á milli ára

Starfandi fólki á vinnumarkaði fjölgaði um 6.400 á fjórða ársfjórðungi síðasta árs frá sama tímabili árið áður og voru tæplega 180 þúsund manns á vinnumarkaði. Þetta segir Hagstofan að jafngildi því að atvinnuþátttaka í landinu sé tæp 82 prósent.

Atvinnuþátttaka karla reyndist umtalsvert meiri á fjórða ársfjórðungi en kvenna, eða tæp 87 prósent á móti rúmlega 76 prósentum.

Atvinnuleysi á fjórða ársfjórðungi reyndist 1,9 prósent miðað við 2,5 prósent á sama fjórðungi í fyrra. Mest var var atvinnuleysið meðal fólks á aldrinum 16-24 ára, eða rúm sex prósent.

Meðalfjöldi vinnustunda reyndist 40,8 klukkustundir á viku á fjórða ársfjórðungi síðasta árs, 45,5 klukkustundir hjá körlum og 35 klukkustundir hjá konum. Til samanburðar var vinnuvikan rúmar 42 klukkustundir á fjórða ársfjórðungi árið 2006, 48 klukkustundir hjá körlum og 35 hjá konum.

Meðalfjöldi vinnustunda hjá þeim sem voru í fullu starfi á fjórða ársfjórðungi síðasta árs var rúmar 46 klukkustundir en hjá þeim sem voru í hlutastarfi voru það helmingi færri tímar, eða 23 klukkustundir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×