Innlent

Björk réðst á ljósmyndara á Nýja Sjálandi

Flestir fjölmiðlar í Nýja Sjálandi greina frá því að söngkonan Björk Guðmundsdóttir hafi ráðist á ljósmyndara við komuna til Auckland en þar á hún að koma fram á tónlistarhátíð. Árásin átti sér stað á flugvellinum í Auckland og mun Björk hafa rifið stuttermabol ljósmyndarans í tvennt.

Ljósmyndarinn sem hér um ræðir heitir Glenn Jeffrey og vinnur við New Zealand Herald. Samkvæmt frásögn í blaðinu The Australian segir Jeffery, sem á að baki 25 ára feril í faginu, að hann hafi tekið tvær myndir og síðan snúið sér í burtu frá Björk. „Hún kom svo aftan að mér, greip í bolinn og reif hann," segir Jeffery og bætir því við að Björk hafi fallið í gólfið í árásinni. Hann segir að hann hafi hvorki snert Björk né talað við hana.

Aðstoðarmaður Bjarkar mun hafa kallað „B ekki gera þetta, B ekki gera þetta," samkvæmt frásögn The Australian og að síðar hafi Jeffrey haft samband við lögregluna vegna málsins. Hann íhugar nú hvort hann fari í skaðabótamál gegn Björk.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×