Enski boltinn

Liverpool staðfestir kaupin á Skrtel

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Martin Skrtel er genginn til liðs við Liverpool.
Martin Skrtel er genginn til liðs við Liverpool. Nordic Photos / Getty Images

Liverpool hefur staðfest að varnarmaðurinn Martin Skrtel hefur samið við félagið til næstu fjögurra og hálfs árs.

Kaupverðið mun nema 6,5 milljónum punda en hann kemur frá rússneska félaginu Zenit St. Pétursborg. Þar með er hann orðinn dýrasti varnarmaður Liverpool frá upphafi en Daniel Agger var keyptur fyrir tveimur árum á 5,8 milljónir punda.

Rafael Benitez, stjóri Liverpool, sagði að hann hefði miklar væntingar til Skrtel. „Ég held að hann sé ekki mjög þekktur knattspyrnumaður en hann spilaði gegn Everton í UEFA-keppninni og hann er miðvörður sem þekkir vel til enska leikstílsins."

„Hann er grimmur í sínum leik, snöggur, góður skallamaður og ég held að hann muni reynast liðinu vel bæði á þessu tímabili og í framtíðinni."

Benitez sagði að útsendarar félagsins hafi fyrst tekið eftir honum þegar hann lék með landsliði Slóvakíu og að þeir hafi fylgst lengi með honum.

Hann býst þó ekki við að hann spili með liðinu gegn Middlesbrough um helgina þar sem rússnesku deildarkeppninni lauk í nóvember og Skrtel skorti af þeim sökum leikæfingu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×