Innlent

Segja útskýringar bæjarstjóra fyrirslátt

Rósa Guðbjartsdóttir er einn af bæjarfulltrúum Sjálfstæðisflokksins í Hafnarfirði.
Rósa Guðbjartsdóttir er einn af bæjarfulltrúum Sjálfstæðisflokksins í Hafnarfirði. MYND/Anton Brink

Sjálfstæðismenn í Hafnarfirði segja útskýringar Lúðvíks Geirssonar á lækkun fasteignaskatta vegna breyttra forsendna fyrirslátt.

Samþykkt var á fundi bæjarráðs Hafnarfjarðar í morgun að vísa tillögu bæjarstjóra um lækkun álagningarstofna fasteignagjalda fyrir þetta ár til bæjarstjórnar. Var það gert í ljósi þess að fasteignamat á húsnæði Hafnarfirði hefði hækkað nokkuð umfram það sem gert væri ráð fyrir í forsendum fjárhagsáætlunar Hafnarfjarðarbæjar fyrir árið 2008.

Í tilkynningu frá sjálfstæðismönnum í Hafnarfirði er því fagnað að bæjarstjóri leggi nú fram tillögu um lækkun álagningarprósentu á fasteignagjöld í Hafnarfirði. Hins vegar veki það upp spurningar hvers vegna meirihluti Samfylkingarinnar hafi fellt sömu tillögu þegar bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins lögðu hana fram við afgreiðslu fjárhagsáætlunar ársins 2008 í bæjarstjórn fyrir þremur vikum.

Útskýringar bæjarstjóra um að forsendur hafi breyst síðan þá þar sem fasteignamatið hafi hækkað um 12 prósent en ekki 10 prósent eins og gert hafði verið ráð fyrir sé hreinn fyrirsláttur af hans hálfu, segja sjálfstæðismenn. Lækkunin nú sé umtalsvert meiri en sem nemur þeim tveggja prósenta mun á fasteignamati.

„Eftir mikla umræðu um skatta og gjöld í sveitarfélögunum í þjóðfélaginu að undanförnu og ákall verkalýðsforystunnar í gær um lækkun fasteignagjalda, neyðist meirihluti Samfylkingarinnar til að grípa þessara breytinga, aðeins þremur vikum eftir að hafa kolfellt tillögu Sjálfstæðismanna þar um,“ segir í tilkynningu sjálfstæðismanna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×