Innlent

Fyrirtæki verði við kröfu ráðherra

MYND/Anton

Talsmaður neytenda fagnar tillögum viðskiptaráðherra um afnám seðilgjalda. Hann segir að verði fyrirtæki ekki við kröfu ráðherra taki þau áhættu á að neytendur eigi endurgreiðslukröfu á hendur þeim vegna ólögmætrar gjaldtöku.

Gísli Tryggvason, talsmaður neytenda, átti sæti í starfshópi viðskiptaráðherra sem kynnti í gær niðurstöðu eftir rúmlega fjögurra mánaða vinnu um heimildir fjármálafyrirtækja til gjaldtöku. Helstu niðurstöður hópsins voru að seðilgjöld eru óheimil nema samningar gildi þar um, að uppgreiðsla lána undir fimmtíu milljónum á breytilegum vöxtum verði gerð möguleg og að fit kostnaður ætti að vera í samræmi við upphæð sem farið er yfir.

Gísli segir á heimasíðu embættisins talsmaður.is að að hann vænti þess að þau áform sem ráðherra hafi kynnt verði til þess að sporna gegn óheimilum seðilgjöldum. Að öðrum kosti taki fyrirtæki sem krefji neytendur um seðilgjöld á hæpnum grundvelli og jafnvel í bága við lög, þá áhættu að neytendur eigi endurgreiðslukröfur vegna óréttmætrar gjaldtöku.

Hann segir að hér sé um verulegar réttarbætur að ræða fyrir neytendur. Brýnt sé að fyrirtæki upplýsi neytendur um alla gjaldtöku og að þeim sé kunnugt um hvaða gjöld þeir greiði og samþykki það helst skriflega í samningum við fyrirtækin. Vanræksla á upplýsingaskyldu gæti meðal annars leitt til bótaábyrgðar samkvæmt gildandi lögum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×