Innlent

Starfsmönnum samgönguráðuneytis fjölgar um þriðjung

Samgönguráðuneytið er til húsa í Hafnarhúsinu.
Samgönguráðuneytið er til húsa í Hafnarhúsinu. MYND/Heiða

Starfsmönnum samgönguráðuneytisins fjölgar nú um áramótin um þriðjung þegar ýmis verkefni verða færð til ráðuneytisins. Meðal þeirra verkefna sem ráðuneytið tekur við er rekstur Keflavíkurflugvallar og málefni Flugmálastjórnar.

Breytngarnar eru gerðar í samræmi við stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar og er markmið þeirra að laga stjórnsýsluna og verkefni ráðuneyta að þörfum nútímans að því er segir í athugasemdum með lagafrumvarpi um tilfærslu verkefna.

Mestar verða breytingarnar innan samgönguráðuneytisins og mun starfsmönnum þess fjölga um þriðjung en hjá ráðuneytinu störfuðu áður 24 starfmenn en verða 32. Sveitarstjórnarmál og Jöfnunarsjóður sveitarfélaganna færast til ráðuneytisins frá félagsmálaráðuneytinu og með þeim verkefnum flytjast fimm starfsmenn til samgönguráðuneytisns. Þá er gert ráð fyrir að ráða tvo til viðbótar.

Ábyrgð á málefnum Flugmálastjórnar á Keflavíkurflugvelli og rekstri Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar flyst einnig til samgönguráðuneytisins en þau mál hafa verið á forræði utanríkisráðuneytisins. Fyrirhuguð er lagabreyting í því skyni að sameina starfsemi Flugmálastjórnar á Keflavíkurflugvelli og Flugstöðvarinnar í opinbert hlutafélag og mun samgönguráðherra fara með hlutabréf ríkisins í félaginu. Þriðja breytingin á ráðuneytinu er sú að ferðamál verða flutt til iðnaðarráðuneytisins.

Þá er fyrirhugað að færa vatnamælingar frá Orkustofnun til Veðurstofu Íslands og verður stofnuð ný stofnun utan um starfsemina sem mun heyra undir umhverfisráðuneytið í stað iðnararáðuneytis.

Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins færist frá viðskiptaráðuneyti til iðnaðarráðuneytis og menntastofnanir landbúnaðarins færast úr landbúnaðarráðuneyti til ráðuneytis menntamála.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×