Innlent

Margir draga að henda jólatrénu

Þótt jólin séu liðin draga margir það í lengstu lög að taka niður jólaskreytingarnar. Þetta vita engir betur en þeir borgarstarfsmenn sem aka þessa dagana um götur Reykjavíkur og hirða upp jólatrén.

Þeir Brynjar Aðalsteinsson og Snæbjörn Stefánsson fóru um Holtin og Norðurmýrina í dag að sækja jólatré sem íbúar höfðu sett við lóðamörk, eins og mælst er til. Þetta er ekki alltaf létt verk. Meðal annars þurftu þeir að hirða 4-5 metra hátt tré, sem var svo stórt að þeir neyddust til að saga það í sundur til að koma því á bílpallinn.

Sumir eru ekkert að hafa fyrir því að tína jólaskrautið af og eru dæmi um trjám sé hent með jólaseríu á og jafnvel öllu jólaskrautinu.

Þetta var önnur ferð þeirra um þetta hverfi og væntanlega ekki sú síðasta því borgarbúar hafa frest fram til föstudags að koma trjánum út. Snæbjörn býst við að sumir dragi það fram á helgi og jafnvel lengur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×