Innlent

Vík í Mýrdal er að drukkna í sandi

Mikill fjörusandur hefur fokið yfir Vík í Mýrdal í óveðrinu sem geisað hefur á landinu undanfarið. Heimamenn segja að þorpið sé að drukkna í sandi en flæðarmálið færist nær þorpinu með hverju árinu.

Þórir N. Kjartansson, framkvæmdastjóri Víkurprjóns, hefur búið í Vík síðan 1962. Hann segir að ástandið fari versnandi með hverju árinu. ,,Það er einkum í suðvestan roki sem ástandið er verst," segir Þórir. ,,Þá veldur sandurinn skemmdum á bílum ef þeir eru ekki í skjóli og dæmi eru um að gluggar í heilu húsunum verði mattir og eyðileggist af völdum sandfoksins."

Að sögn Þóris er nýtt Kötlugos hið eina sem getur bjargað Vík frá þessu vandamáli. ,,Fjaran gekk fram eftir síðasta Kötlugos en frá áttunda áratugnum hefur sjórinn stöðugt sorfið meira af henni," segir Þórir. ,,Og nú hefur sjórinn brotið sér leið í gegnum síðustu náttúrulegu vörnina sem voru uppgræddir melhólar fyrir framan þorpið."

Í máli hans kemur fram byrjað sé að huga að því að búa til grjótvörn gegn ágangi sjávarins. Það sé hins vegar óhemju dýrt verkefni og ljóst að Vík hefur ekki bolmagn til að standa að slíkri framkvæmd ein og sér.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×