Innlent

Verða að fá stuðning frá opinberum aðilum

Þórarinn Tyrfingsson
Þórarinn Tyrfingsson

Þórarinn Tyrfingsson formaður SÁÁ segir vonlaust fyrir samtökin að halda úti göngudeild á Akureyri fáist ekki stuðningur frá opinberum aðilum. Deildinni hafa samtökin haldið úti í 20 ár en allt þetta ár hefur henni verið haldið úti án fjárveitingar frá Heilbrigðisráðuneytinu sem hefur greitt stóran hluta af kostnaði deildairnnar undanfarin ár. Þetta kemur fram á heimasíðu SÁÁ.

Þórarinn segir að á milli 100 og 200 manns fari á hverju ári suðu á Vog af Eyjafjarðarsvæðinu, en mikilvægust sé deildin fyrir aðstandendur áfengis- og vímuefnasjúklinga sem fái mikla fræðslu þar inni.

„Göngudeild SÁÁ á Akureyri hefur því í góðri samvinnu við heilsugæsluna, geðdeildina og félagsþjónustuna greitt götu margra inn á Vog og stutt þá síðan eftir meðferðina. Flestir sem á göngudeildina koma þurfa þó ekki að fara suður þar sem þeir fá alla nauðsynlega þjónustu á göngudeildinni. Í þriðja lagi fær aðstandandinn nauðsynlega fræðslu og meðferð," segir Þórarinn í greininni.

Þórarinn segir göngudeildina á Akureyri ekki vera þá einu sem ekki hefur fengist fjármagn því það sama sé uppi á teningnum í Reykjavík.

„Nú þegar kreppir að er næst vonlaust fyrir SÁÁ að halda Göngudeildinni á Akureyri úti án verulegs stuðnings frá opinberum aðilum. Þjónusta SÁÁ við áfengissjúklinga og aðstandendur þeirra á Akureyri hefur alla tíð verið hornreka og ekki átt upp á pallborðið hjá valdhöfum. Engin hefur viljað eiga þetta óskabarn Akureyrar nema á tyllidögum.

Deildin er ekki dýr og vandamálið því lítið ef miðað er við hversu mikið er í húfi fyrir unga áfengis- og vímuefnasjúklinga á Norðurlandi. Valdhafar hafa málið í hendi sé með heilbrigðisráðherra, bæjarstjórann og varaformann fjárlaganefndar í sama flokknum sem er í ríkisstjórn. Það ættu því að vera hæg heimatökin og fátt sem getur komið í veg fyrir að málið leysist eða hvað?," spyr Þórarinn í lok greinarinnar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×