Innlent

Mótmæltu ákæru á hendur stofnanda Saving Iceland

MYND/Pjetur

Fólk á vegum Saving Iceland efndi til mótmæla nú í hádeginu við Héraðsdóm Reykjavíkur um leið og Ólafur Páll Sigurðsson, stofnandi hópsins, var kallaður fyrir Héraðsdóm vegna ákæru um eignaspjöll.

Í tilkynningu frá samtökunum í gær kom fram að Ólafur væri ákærður fyrir að valda tjóni á lögreglubifreið við Kárahnjúka en að í raun hefði ökumaður bifreiðarinnar ekið á Ólaf. Þá sagði einnig í tilkynningunni að Ólafur hefði lagt fram kæru vegna atviksins en að Ríkissaksóknari hefði lýst því yfir að ekki væri ástæða til að aðhafast í málinu.

Ólafur Páll við Héraðsdóm Reykjavíkur í morgun.MYND/Sigurjón

Samtökin segja að ákæruvaldið krefjist þess að Ólafur Páll greiði fyrir skemmdir á bílnum og að honum verði refsað samkvæmt lögum. Þegar atvikið átti sér stað var enn í gildi skilorðsdómur yfir Ólafi sem hann hlaut fyrir að sletta skyri á gesti á ráðstefnu í Reykjavík í júní 2005. „Af því leiðir að ef Ólafur Páll verður sekur fundinn um að hafa skemmt lögreglubílinn kann hann að verða hnepptur í fangelsi."
Fleiri fréttir

Sjá meira


×