Lífið

Tímarit.is stækkar og stækkar

Stefnt er að því að viðkvæmt dagblaðaefni fari allt af pappír og örfilmum á stafrænt form.
Stefnt er að því að viðkvæmt dagblaðaefni fari allt af pappír og örfilmum á stafrænt form.

Ný og endurbætt útgáfa vefjarins tímarit.is verður opnuð 1. desember nk. Nýja viðmótið er mun einfaldara en hið fyrra og gerir þennan vinsæla vef enn notendavænni en áður. Jafnframt verða fyrstu blöðin aðgengileg á PDF-sniði (m.a. Alþýðublaðið) en ætlunin er að allt safnið verði á því sniði í framtíðinni.

Tímarit.is var upphaflega vestnorrænt samstarfsverkefni þjóðbókasafna Íslands, Færeyja og Grænlands sem hófst árið 2000. Um 260 titlar eru nú þegar aðgengilegir á vefnum, langflestir frá Íslandi en líka margir frá Færeyjum og Grænlandi. Upphaflega var miðað við öll blöð og tímarit útgefin fyrir 1920 en það breyttist fljótlega og nú er stefnan sú að veita aðgang að öllum íslenskum blöðum og tímaritum frá upphafi til okkar daga í samráði við útgefendur.

Fyrsti áfanginn í þá átt var samningur safnsins við Árvakur, útgefanda Morgunblaðsins, um stafræna útgáfu allra árganga blaðsins til ársins 2000. Síðan þá hafa 365 miðlar bæst í hópinn ásamt mörgum fleirum og gert hefur verið samkomulag við Blaðamannafélag Íslands vegna blaða sem ekki eru lengur gefin út.

Þegar hefur mikil vinna verið lögð í að ljósmynda gömlu flokksblöðin sem kepptu um blaðamarkaðinn lengst af á 20. öld; Þjóðviljann, Tímann, Morgunblaðið og Alþýðublaðið. Með nýja leitarviðmótinu er með einum smelli hægt að tengja á þá blaðsíðu sem verið er að skoða af ýmsum bloggþjónustum, msn, tölvupósti o.s.frv. Nýja leitarviðmótið er auk þess mun einfaldara og gerir fólki kleift að leita í öllum blöðunum í einu og þrengja síðan leitina eftir blaði og/eða ári, fletta gegnum blöðin og sjá hvaða daga mánaðarins blaðið kom út með dagatali sem birt er efst. Fram að þessu hefur þurft sérstakt forrit, Djvu, til að skoða flest blöðin en ætlunin er að setja allt safnið á PDF-snið með tíð og tíma.

Nýtt timarit.is verður opnað mánudaginn 1. desember nk., á fjórtán ára afmæli Þjóðarbókhlöðunnar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×