Innlent

Vilja algjört bann við nektarsýningum

Atli Gíslason er einn fjögurra þingmanna Vg sem leggja fram frumvarpið.
Atli Gíslason er einn fjögurra þingmanna Vg sem leggja fram frumvarpið. MYND/GVA

Fjórir þingmenn Vinstri - grænna hafa lagt fram frumvarp um breytingar á lögum um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald. Þar er gert ráð fyrir að undanþáguheimild til nektarsýninga í atvinnuskyni á veitingastöðum verði felld brott þannig að algjört bann verði við slíkum sýningum.

Í greinargerð með frumvarpinu segir að sérfræðingar um kynferðisofbeldi hafi bent á að í skjóli nektardansstaða þrífist í mörgum tilfellum eiturlyfjasala og vændi auk þess sem erfitt sé að ganga úr skugga um hvort þær stúlkur sem starfi á slíkum stöðum séu neyddar til starfans eður ei.

Vísað er til þess að fjölmargir aðilar hér á landi, þar á meðal lögregla og félagsþjónusta, hafi staðfest að þeir hafi átt samskipti við fórnarlömb mansals hér á landi. „Það þarf því enginn að velkjast í vafa um það að sú alþjóðlega glæpastarfsemi sem gengur út á að hagnýta sér bága stöðu kvenna til að leiða þær út í vændi eða aðra kynlífsþjónustu teygi anga sína hingað til lands og hafi jafnvel fest hér rætur," segir í greinargerðinni.

Þar segir einnig: „Í ljósi þess að líkur eru á að vændi og mansal þrífist í skjóli nektardansstaða er erfitt að finna rök fyrir því að lögin veiti heimild til undanþágu frá almennu reglunni um að nektarsýningar skuli óheimilar á veitingastöðum. Ástæðan fyrir banninu á sínum tíma var að nýta það í baráttunni gegn vændi og mansali en undanþáguákvæðið stríðir óneitanlega gegn því meginmarkmiði."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×