Innlent

Langflestar konur með Downs-fóstur eyða því

25 af 27 konum sem báru fóstur sem greindist með Downs-heilkenni á árunum 2002-2006 fóru í fóstureyðingu. Þetta kemur fram í svari heilbrigðisráðherra við fyrirspurn Kristins H. Gunnarssonar, þingmanns Frjálslynda flokksins, og Guðfríðar Lilju Grétarsdóttur, varaþingmanns Vinstri grænna.

Þau spurðu ráðherra hvaða tölulegu upplýsingar lægju fyrir um fóstureyðingar þegar fóstur hefði greinst með Downs-heilkenni.

Fram kemur í svari ráðherra að á árabilinu 2002-2006 hafi greinst 50 litningagallar á meðgöngu og sjö eftir fæðingu. 33 af þessum litningagöllum voru svokölluð þrístæða 21, eða Downs-heilkenni, og greindust 27 þeirra á meðgöngu. Af þeim konum sem greindust með þrístæðu 21 með skimun og greiningarprófi ákváðu allar nema tvær að binda endi á meðgönguna.

Konur sem greindust með fóstur með annan litningagalla en þrístæðu 21 kusu einnig að binda endi á meðgönguna nema þegar um var að ræða tiltekin afbrigði í tveimur tilvikum.

Segir ráðherra í svari sínu að þessar niðurstöður séu mjög áþekkar því sem þekkist í flestum öðrum löndum þar sem rekin er sambærileg þjónusta með fósturskimun, fósturgreiningu og erfðaráðgjöf.

Bent er á í svari ráðherra að fóstureyðingar hér á landi vegna félagslegra aðstæðna hafi verið um og yfir 800 á ári. Fóstureyðingar af ástæðum litningagalla séu því einungis brot af þeirri heild.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×