Enski boltinn

Tosic vill betra samningstilboð frá United

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Tosic, til hægri, í leik með serbneska landsliðinu gegn því færeyska í haust.
Tosic, til hægri, í leik með serbneska landsliðinu gegn því færeyska í haust. Nordic Photos / AFP

Serbneski miðvallarleikmaðurinn Zoran Tosic hafnaði samningstilboði Manchester United og vonast til að félagið mun bjóða sér betri samning.

Tosic var staddur á Englandi í síðustu viku þar sem hann gekkst undir læknisskoðun. United og félag Tosic, Partizan Belgrad, hafa komist að samkomulagi um kaupverð og United hefur þegar útvegað Tosic atvinnuleyfi í Englandi.

„Fyrst það tók Partizan og Manchester einn og hálfan mánuð að komast að samkomulagi er varla hægt að búast við því að ég gangi frá öllu mínu á tveimur dögum," sagði Tosic.

„En við verðum áfram í sambandi og ég er enn vongóður um að þetta muni allt blessast að lokum."

Zoran Pavlovic, umboðsmaður Tosic, sagði að þeir hefðu ekki verið ánægðir með fjárhagshlið samningsins.

„Þeir bjuggust við því að við myndum samþykkja hvað sem er," sagði Pavlovic. „En við munum halda áfram að ræða saman."








Fleiri fréttir

Sjá meira


×