Innlent

Börnin fá enn þá hádegismat

Ekki er enn farið að bera á vanskilum á greiðslum foreldra fyrir skólamáltíðir, frístundaheimili og aðra þjónustu við börn í Reykjavík.
Ekki er enn farið að bera á vanskilum á greiðslum foreldra fyrir skólamáltíðir, frístundaheimili og aðra þjónustu við börn í Reykjavík. myndin er úr safnif

Fáar vísbendingar eru komnar fram um slæm áhrif kreppunnar á börnin í borginni. Þetta segir Ragnar Þorsteinsson, fræðslustjóri í Reykjavík og formaður „Barnanna í borginni“, viðbragðsteymis sem ætlað er að fylgjast með líðan og högum barna á krepputímum. Teymið tók til starfa í október og hefur síðan hist á viku til tveggja vikna fresti.

Sérstakar gætur eru hafðar á þeirri þjónustu sem kostar peninga. Það eru meðal annars skólamáltíðir, frístundaheimili og leikskólagjöld.

„Við erum nýbúin að fá tölur fyrir nóvember­mánuð og sjáum ekki marktækan mun á október og nóvember.“ Foreldrar virðist ekki farnir að draga úr því að kaupa hádegismat fyrir börnin sín í skólanum, eins og margir óttast að verði raunin. „Við skoðum líka vanskil. Þau hafa heldur ekki aukist á milli mánaða.“ Þá segir hann foreldra ekki í nokkrum mæli farna að draga börnin sín út úr frístunda­þjónustu.

„Annars eru menn sammála um að við séum enn ekki farin að finna fyrir áhrifum kreppunnar fyrir alvöru,“ segir Ragnar. „Við vöktum því þessi mál eins vel og við getum. Það má búast við því að þetta þyngist þegar líður á veturinn.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×