Innlent

Landsyfirréttur taki við áfrýjunarmálum til Hæstaréttar

MYND/Stefán

Nefnd sem Björn Bjarnason dóms- og kirkjumálaráðherra skipaði í fyrra í tengslum við dómskerfi landsins leggur til að stofnað verði nýtt millidómsstig sem beri heitið Landsyfirréttur.

Nefndinni var falið að fjalla um hvernig tryggja mætti sem best milliliðalausa sönnunarfærslu í meðferð sakamála og vill hún að á umræddu millidómsstigi verði eingöngu leyst úr sakamálum og þar fari fram sönnunarfærsla á nýjan leik. Til dómstólsins verði áfrýjað þeim sakamálum sem nú sæti áfrýjun til Hæstaréttar. Fram kemur í tilkynningu dómsmálaráðuneytisins að Björn Bjarnason hafi kynnt álit nefndarinnar í ávarpi á hátíðarmálþingi lagadeildar HÍ í dag.

„Í tillögum nefndarinnar kemur fram að málum yrði skotið frá hinu nýja millidómstigi til Hæstaréttar á grundvelli áfrýjunarleyfis en eftirleiðis fjalli Hæstiréttur einungis um lagaatriði og ákvörðun refsingar. Hins vegar verði ekki unnt að endurskoða niðurstöðu millidómstigs um mat á sönnun og sönnunargildi munnlegra framburða. Þá verði öllum ágreiningsmálum varðandi réttarfar og rannsóknaraðgerðir í héraðsdómi skotið til millidómstigsins með kæru," segir í tilkynningunni.

Nefndin gerir ráð fyrir að sex dómarar að lágmarki starfi við millidómsstigið og að dómstóllinn starfi í tveimur þriggja manna deildum. Þá verði almennt fallið frá fjölskipuðum dómi í héraði. Mál fyrir dóminum flytji ríkissaksóknari og saksóknarar við embætti hans og hæstaréttarlögmenn.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×