Enski boltinn

Kannski er kominn tími á að Chelsea tapi heima

NordicPhotos/GettyImages

Rafa Benitez stjóri Liverpool segir sína menn tilbúna í toppslaginn gegn Chelsea á Stamford Bridge á sunnudaginn jafnvel þó liðið verði án markaskorarans Fernando Torres.

Chelsea hefur ekki tapað á heimavelli í 86 leikjum í röð í úrvalsdeildinni og Benitez segir að kannski sé kominn tími á að breyta því.

"Allir vita að Fernando Torres er lykilmaður fyrir lið okkar. Hann skorar mörk og klárar leiki fyrir okkur, en við höfum nú klárað leiki án hans áður. Ég hef trú á liðinu. Við munum kannski breyta eitthvað út af vananum án Torres, en við spjörum okkur," sagði Benitez.

Liverpool er í harðri toppbaráttu snemma á tímabilinu líkt og á síðustu leiktíð, en keppikefli þeirra rauðklæddu á þessari leiktíð verður án efa að halda dampi.

"Við verðum að bæta okkur enn frekar og ég vil reyna að halda liðinu á þessu plani áfram og til þess þarf það að vinna leiki sem þennan. Við höfum hugarfarið í að vinna þennan leik og kannski er kominn tími á tap hjá Chelsea heima eftir allan þennan tíma," sagði Spánverjinn.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×