Innlent

Efnafræðineminn lauk afplánun fyrir innan við mánuði

Efnafræðineminn sem handtekinn var í gær vegna amfetamínverksmiðjunnar í Hafnarfirði lauk afplánun fyrir minna en mánuði.

Eins og fréttastofa greindi frá í gær voru báðir mennirnir sem sitja í gæsluvarðhaldi vegna amfetamínverksmiðjunnar í Hafnarfirði á reynslulausn. Sá eldri, Jónas Ingi Ragnarsson, vegna aðildar sinnar að líkfundarmálinu í Neskaupsstað

Sá yngri, Tindur Jónsson, fékk sex ára fangelsisdóm árið 2005 fyrir lífshættulega árás. Til að byrja með afplánaði Tindur á Litla-Hrauni, þaðan fór hann hins vegar fljótlega á Kvíabryggju. Í fyrra fékk hann svo leyfi til þess að aflpána á áfangaheimilinu Vernd í Reykjavík. Þetta var gert svo að Tindur gæti hafið nám við Háskóla Íslands.

Tindur kaus að nema efnafræði. Að sögn samnemenda hans sem fréttastofa hefur rætt við í morgun var Tindur góður nemandi. Honum gekk vel í náminu og fékk ágætis einkunnir. En nemendur og kennarar vissu hver bakgrunnur Tinds var. Sá möguleiki var ræddur manna á milli hvort Tindur væri að sækja sér efnarfræðimenntun í annarlegum tilgangi.

Fyrir tæpum mánuði fékk Tindur svo reynslulausn. Hann fékk að flytja út af Vernd og í sitt eigið húsnæði. Á sama tíma hóf hann nám á öðru ári efnafræðinnar.

En þá var lögreglan langt komin í umfangsmikilli rannsókn á amfetamínverksmiðjunni í Hafnafirði. Lögreglan telur efnafræðinemann Tind tengjast málinu og var hann handtekinn í gær og úrskurðaður í gæsluvarðhald, minna en mánuði eftir að hann hafði fengið frelsið aftur.







Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×