Hæstiréttur hefur fellt dóm í Baugsmálinu svokallaða og hann staðfestir dóm héraðsdóms. Þriggja mánaða skilorðsbundinn dómur yfir Jóni Ásgeiri Jóhannessyni og Jóni Gerald Sullenberger er staðfestur og sömuleiðis tólf mánaða dómur yfir Tryggva Jónssyni. Ríkissjóður skal greiða 20 milljónir í málskostnað fyrir Jón Ásgeir Jóhannesson, 15 milljónir fyrir Tryggva Jónsson og sjö milljónir fyrir Jón Gerald Sullenberger.
Héraðsdómur Reykjavíkur hafði dæmt Jón Ásgeir Jóhannesson, stjórnarformann Baugs Group, í þriggja mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir að hlutast til um útgáfu tilhæfulauss kreditreiknings frá Nordica, félagi Jóns Geralds, sem færður var í bókhald Baugs félaginu til tekna. Reikningurinn var upp á um 62 milljónir króna.
Tryggvi Jónsson, fyrrverandi aðstoðarforstjóri Baugs, hafði einnig verði sakfelldur fyrir þennan ákærulið ásamt þremur öðrum bókhaldsbrotum og fjárdráttarbroti sem sneri að notkun á greiðslukorti í eigu Baugs. Hlaut hann samtals tólf mánaða skilorðsbundinn dóm í héraði. Þá var Jón Gerald dæmdur í þriggja mánaða skilorðsbundið fangelsi í héraðsdómi fyrir hlutdeild sína í útgáfu áðurnefnds kreditreiknings.
Um var að ræða þann hluta Baugsmálsins sem varð til þegar settur ríkissaksóknari, Sigurður Tómas Magnússon, gaf út endurákæru í 19 liðum 31. mars 2006. Héraðsdómur hafði vísað einum þeirra frá, þeim veigamesta, og því var fjallað um 18 þeirra í héraðsdómi og Hæstarétti. Þeir lutu að meintum ólögmætum lánveitingum til félaga tengdum Baugi, bókhaldsbrotum og fjárdrætti. Öll brotin áttu að hafa átt sér stað þegar Baugur var almenningshlutafélag í kringum síðustu aldamót.
Jón Ásgeir var ákærður í 17 þessara 18 liða en var sýknaður af öllum nema einum í héraðsdómi sem fyrr segir.
Með þessu má segja að öðrum hring Baugsmálsins í dómskerfinu sé lokið. Einn angi í viðbót er óútkljáður en hann lýtur að meintum skattalagabrotum aðila tengdum Baugi. Efnahagsbrotadeild Ríkislöreglustjóra hefur þau til rannsóknar en ekki liggur fyrir hvenær þeirri rannsókn lýkur og hvort ákært verður í framhaldi af henni.
Dómsorð Hæstaréttar fer hér á eftir, en dóminn má í heild sinni lesa hér.
Ákærði Jón Ásgeir Jóhannesson sæti fangelsi í þrjá mánuði. Fresta skal fullnustu refsingarinnar og hún falla niður að liðnum tveimur árum frá uppsögu þessa dóms ef ákærði heldur almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.
Ákærði Tryggvi Jónsson sæti fangelsi í tólf mánuði. Fresta skal fullnustu refsingarinnar og hún falla niður að liðnum tveimur árum frá uppsögu þessa dóms ef ákærði heldur almennt skilorð samkvæmt framangreindum lagaákvæðum.
Ákærði Jón Gerald Sullenberger sæti fangelsi í þrjá mánuði. Fresta skal fullnustu refsingarinnar og hún falla niður að liðnum tveimur árum frá uppsögu þessa dóms ef ákærði heldur almennt skilorð samkvæmt framangreindum lagaákvæðum.
Ákærði Jón Ásgeir greiði af málsvarnarlaunum skipaðs verjanda síns í héraði og fyrir Hæstarétti, Gests Jónssonar hæstaréttarlögmanns, 1.530.000 krónur vegna rekstrar málsins í héraði og 750.000 krónur vegna rekstrar málsins fyrir Hæstarétti. Málsvarnarlaun verjandans að öðru leyti, samtals 20.920.000 krónur á báðum dómstigum, greiðast úr ríkissjóði.
Ákærði Tryggvi greiði af málsvarnarlaunum skipaðs verjanda síns í héraði og fyrir Hæstarétti, Jakobs R. Möller hæstaréttarlögmanns, 2.515.000 krónur vegna rekstrar málsins í héraði og 1.875.000 krónur vegna rekstrar málsins fyrir Hæstarétti. Málsvarnarlaun verjandans að öðru leyti, samtals 15.410.000 krónur á báðum dómstigum, greiðast úr ríkissjóði.
Ákærði Jón Gerald greiði af málsvarnarlaunum skipaðs verjanda síns í héraði og fyrr Hæstarétti, Brynjars Níelssonar hæstaréttarlögmanns, 2.025.000 krónur vegna rekstrar málsins í héraði og 400.000 krónur vegna rekstrar málsins fyrir Hæstarétti. Málsvarnarlaun verjandans að öðru leyti, samtals 7.275.000 krónur á báðum dómstigum, greiðast úr ríkissjóði.
Ákærði Jón Ásgeir greiði í ríkissjóð vegna annars sakarkostnaðar í héraði samtals 7.568.519 krónur, þar af 5.000.000 krónur óskipt með ákærða Tryggva.
Að öðru leyti greiðist sakarkostnaður í héraði og áfrýjunarkostnaður málsins úr ríkissjóði.