Innlent

10-11 lögga ákærð fyrir brot í starfi

Ríkissaksóknari hefur ákveðið að gefa út ákæru á hendur lögreglumanni sem á myndbandi á vefnum YouTube sést taka ungan pilt kverkataki í verslun 10-11 í Grímsbæ.

Málið kom upp í lok maímánaðar en á myndbandinu sést lögreglumaðurinn ráðast á piltinn eftir að hafa beðið hann um að tæma vasa sína. Lögregluyfirvöld á höfuðborgarsvæðinu ákváðu í kjölfar þess að lögreglumaðurinn skyldi ekki sinna störfum á meðan Ríkislögreglustjóri tæki ákvörðun um hvort vísa bæri manninum frá störfum á meðan á rannsókn ríkissaksóknara stæði.

Fram kom í Fréttablaðinu 12. júlí að maðurinn væri aftur kominn til starfa og að Ríkislögreglustjóri hefði ekki tekið neina ákvörðun í málinu. Ekki liggur fyrir hvort hann starfar enn þá hjá lögreglunni en fram kom í frétt DV af málinu í vor að lögreglumaðurinn hygðist bara starfa hjá lögreglunni í sumar.

Ríkissaksóknari hefur hins vegar rannsakað atvikið í sumar og hefur nú gefið út ákæru á hendur lögreglumanninum fyrir brot í opinberu starfi. Málið hefur verið sent héraðsdómi og verður væntanlega þingfest á næstu vikum.












Fleiri fréttir

Sjá meira


×