Innlent

Félag um innflutning á holdanautum lagt niður

MYND/GVA

Eignarhaldsfélagið Nautastöð Landssambands kúabænda, sem áður sinnti innflutningi á erfðaefni úr nautgripum, hefur verið lagt niður.

Fram kemur á vef Landssambands kúabænda að þetta rúmlega 13 ára gamla félag hafi staðið að innflutningi á erfðaefni úr Aberdeen Angus og Limousine-holdanautakynjunum um miðjan síðasta áratug og rak einangrunarstöð í Hrísey í því skyni en við því hlutverki hefur Nautastöð Bændasamtaka Íslands á Hvanneyri tekið.

Bent er á að hin seinni ár hafi starfsemi félagsins einungis falist í því að gefa út einn sölureikning á ári vegna þessarar sæðissölu og greiða virðisaukaskatt af henni. Það þótti núverandi framkvæmdastjóra Landssambands kúabænda, sem hefur umsjón með eignarhaldsfélaginu, heldur umfangslítill rekstur fyrir heilt félag og var því tekin ákvörðun um það að slíta félaginu árið 2006.

Það ferli hefur tekið á annað ár, aðallega vegna óuppgerðra skattamála félagsins, en það átti inni ofgreidda skatta sem námu umtalsverðri upphæð. Slit Nautastöðvar Landssambands kúabænda ehf. miðast við 30. desember 2007.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×