Innlent

Kertabrunum fækkar umtalsvert

Sigríður Guðlaugsdóttir skrifar
MYND/Úr safni Stöðvar 2

Umfjöllun í fjölmiðlum og auglýsingaherferðir hafa skilað frábærum árangri til fækkunar kertabrunum um jólahátíðina á síðustu árum. Þetta segir Einar Guðmundsson forstöðumaður Forvarnarhúss Sjóvár. Samkvæmt upplýsingum úr tjónatölum tryggingafélagsins hefur þeim fækkað jafnt og þétt frá árinu 2000.

Á 15 daga tímabili frá 23. desember til 6. janúar voru flestir kertabrunar árið 2001 þegar 484 brunar urðu af völdum kerta, um nýliðna hátíð voru tilfellin 122.

„Það er auk þess afar gleðilegt að sjá að jóladagarnir þrír séu brunalausir síðustu tvö ár, auk átta annarra daga á tímabilinu," segir Einar en enginn dagur var brunalaus á tímabilinu árin 2000-2006. Á 15 daga tímabilinu urðu að meðaltali 7,8 kertabrunar á dag á árunum 2000-2006, en meðaltalið árin 2007-2008 var 1,6 bruni á dag. Langflestir kertabrunar á fyrra tímabilinu voru á nýársdag, að meðaltali 17. En einungis þrjú tilfelli komu upp síðustu tvo nýársdaga.

Talið er að kviknað hafi í út frá kerti í brunanum í Tunguseli aðfaranótt mánudags þegar einn maður lést. Mannskaði af völdum kertabruna þar á undan varð á Þingeyri í janúarbyrjun árið 2002. Þá létust hjón og eitt barn af völdum kertabruna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×