Innlent

164 milljónir til framkvæmda fyrir aldraða

Ásta Möller er formaður Samstarfsnefndar um málefni aldraðra.
Ásta Möller er formaður Samstarfsnefndar um málefni aldraðra.

164 milljónum króna var úthlutað úr Framkvæmdasjóði aldraðra nýverið til sex aðila. Það var Samstarfsnefnd um málefni aldraðra sem lagði fram tillögur um úthlutun og samþykkti heilbrigðisráðherra þær.

Samkvæmt ákvörðuninni fær Akraneskaupstaður rúmar 27 milljónir króna til að kaupa fasteign fyrir félagsstarf aldraðra, hjúkrunarheimilið Eir 15 milljónir til að reisa dagdeild fyrir 20 gesti í Spönginni í Reykjavík og Snæfellsbær fékk 30 milljóna styrk til að byggja 12 rýma hjúkrunarheimili við Hjarðartún 3 í Snæfellsbæ.

Enn fremur fékk borgin 18 milljóna króna styrk til að kaupa fasteign fyrir dagvistarúrræði fyrir heilabilaða og 3 milljónir til að breyta húsnæðinu og Hafnarfjarðarbær fékk 4,5 milljónir til að breyta fasteign vegna dagvistunar fyrir alzheimersjúklinga og 2,8 milljónir vegna hvíldarinnlagna fyrir sama sjúklingahóp. Að lokum fékk Kópavogsbær 60 milljónir króna til að reisa nýtt hjúkrunarheimili í Kópavogi.

Hér er um að ræða síðustu úthlutun heilbrigðisráðherra úr Framkvæmdasjóði aldraðra þar sem hann hefur verið fluttur til félags- og tryggingarmálaráðuneytis í samræmi við breytingar á verkaskiptingu í stjórnarráðinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×