Innlent

Vilja frestun stórframkvæmda og Þjóðhagsráð

Þingmenn Vinstri - grænna vilja stykja gjaldeyrisvaraforða Seðlabankans, efla nýsköpun og fresta stóriðjuframkvæmdum og setja á fót svokallað Þjóðhagsráð til þess að koma á stöðugleika í efnahagsmálum. Þetta er meðal þess kemur fram í frumvarpi sem þingflokkurinn vill hyggst leggja fram á næstunni og ná aðgerðirnar til áranna 2008 og 2009.

Frumvarpið var kynnt í morgun og er í fjórum liðum. Lagt er til að Seðlabankinn verði styrktur með því að auka gjaldeyrisvaraforðann um allt að 80 milljarða og styrkja eigið fé hans til viðbótar um allt að 40 milljarða með innlendu skuldafjárútboði. Þá bjóði ríkisstjórnin út sérstök sparnaðarskuldabréf á innlendum markaði að hámarki tvær milljónir króna á hvern einstakling til minnst 5 ára í senn og verði vaxtatekjur undanþegnar fjármagnstekjuskatti.

Þá vill flokkurinn bæta stöðu illa settra sveitarfélaga með því að verja til þeirra allt að fimm milljörðum króna gegnum Jöfnunarsjóð sveitarfélaga. Sérstaklega verði hugað að aðgerðum sem skapa konum störf, vinna gegn kynbundnum launamun og kyngreindum búferlaflutningum.

Enn fremur er lagt til að þremur milljörðum verði varið í Nýsköpunarsjóð, Tækniþróunarsjóð og til atvinnuþróunarfélaga auk ferðaþjónustu og uppbyggingar þjóðgarða. Þá verði stóriðju- og stórframkvæmdum frestað um sinn með því að kaupa rannsóknarniðurstöður og greiða fyrirtækjum útlagðan undirbúningskostnað. Einnig verði heimilt að stöðva leyfisveitingar innan tilgreindra tímamarka sé það nauðsynlegt til að ná efnahagslegum stöðugleika og varðveita hann.

Skoða hvort endurreisa eigi Þjóðhagsstofnun

Í fjórða lagi vilja Vinstri - græn setja á stofn sérstakt Þjóðhagsráð, skipað fulltrúm þingflokka og hagsmunaaðila, sem veitir stjórnvöldum ráðgjöf, metur framvindu og horfur í þjóðarbúskapnum og gefur mánaðarlega álit um stöðu mála.

Þjóðhagsráð á að skoða hvort ástæða sé til að endurreisa Þjóðhagsstofnun eða hliðstæða fagstofnun og hvernig styrkur lífeyrissjóðanna megi best nýtast innan hagkerfisins, t.d. í samhengi við framtíðarskipan húsnæðismála, þó þannig að lífeyrissparnaður landsmanna sé ætíð tryggður eins og best er mögulegt.

Þá vill flokkurinn verja allt að 100 milljónum króna til að efla starfsemi Fjármálaeftirlitsins, einkum á sviði áhættugreiningar og áhættuprófana fjármálafyrirtækja.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×