Innlent

Fjarri því að kuldamet falli

MYND/Vilhelm

Þótt kuldinn á landinu sé mikill þessi dægrin er fjarri því að 90 ára kuldamet frostaveturin mikla falli. Þetta segir Sigurður Þ. Ragnarsson, veðurfræðingur á fréttastofu Stöðvar 2.

„Það er skemmtileg tilviljun að í dag eru akkúrat 90 ár frá því að einum mesta frostakafla á Íslandi lauk, að minnsta kosti síðan mælingar hófust. Sá kafli var veturinn 1918 sem oft hefur verið nefndur frostaveturinn mikli. Kaflinn hófst 6. janúar 1918 og stóð í þrjár vikur sunnan lands en lauk ekki fyrr en 1. febrúar á Norðurlandi," segir Sigurður. Á þessum tíma mældist frostið mest 36 gráður á Grímsstöðum á Fjöllum en í Reykjavík fór það mest í 24,5 gráður. „Kuldinn í dag er því varla hálfdrættingur á við mesta kuldann árið 1918," segir Sigurður.

Kuldinn í dag er engu að síður meiri en landsmenn hafa átt að venjast undanfarnar vikur. Þannig mældist 19 stiga frost í Húsafelli í morgun og 11 stiga frost í Reykjavík. „Þetta kuldakast sem hefur varað í rúma viku nær hámarki snemma í fyrramálið," segir Sigurður og bendir á að kuldamet þessarar aldar í borginni gæti fallið. Árið 2004 var 15 stiga frost í Reykjavík sem er mesti kuldi á þessari öld.

„Á sunnudag kemur lægð sem hefur það mikla hlutverk að koma burt þessu ísjökulkalda lofti. Því fylgja mikil átök," segir Sigurður enn fremur og býst við að það hlýni fyrst og fremst með ströndum landsins á sunnudag en ekki inn til landsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×