Lögregla leitar enn tveggja manna sem rændu Select-verslun í Hraunbæ á tólfta tímanum í fyrrakvöld.
Þangað ruddust þeir inn vopnaðir hnífum og höfðu á brott með sér peninga, tóbak og símakort. Fram kemur í DV í dag að tveir ungir piltar og öryggisvörður frá Securitas hafi veitt þeim eftirför og misstu þjófarnir ránsfeng sinn á flóttanum.
Ómar Smári Ármannsson hjá auðgunarbrotadeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu segir lögregluna hafa lýsingu á mönnunum en hann gefur ekkert upp um það hvort lögregla viti hverjir voru þarna á ferð.