Innlent

Ófært um Grindavíkurveg vegna ofankomu

Götur eru víða þungfærar á Suðurnesjum.
Götur eru víða þungfærar á Suðurnesjum. MYND/Stöð 2

Enn er veður slæmt á Suðurnesjum og segir lögreglan ófært um Grindavíkurveg eins og stendur.

Í og við Grindavík hefur Björgunarsveitin Þorbjörn aðstoðað fólk sem lent hefur í vandræðum á bílum sínum. Hafa björgunarsveitarmenn nú þegar losað tugi bíla, bæði stóra og smáa, og enn er nóg að gera hjá björgunarsveitinni.

Þá féll kennsla niður í Grunnskóla Grindavíkur í dag vegna veðursins sem enn er snarvitlaust að sögn bæjarbúa. Óveðrið virðist aðallega bundið við Grindavík því fært eru um Reykjanesbrautina en þar er þó hálka og snjókoma.

Tvö umferðaróhöpp urðu þó Reykjanesbæ í morgun, en þar hafnaði bíll á ljósastaur og annar á umferðarskilti. Meiðsli ökumanna munu hafa verið minni háttar.

Hálka, éljagangur, og skafrenningur er á Sandskeiði, Hellisheiði og í Þrengslum. Á öðrum leiðum á Suðurlandi eru hálkublettir.

Á Vesturlandi er hálka og éljagangur á Holtavörðuheiði, snjóþekja og snjókoma a flestum öðrum leiðum. Á Snæfellsnesið eru hálkublettir, snjóþekja og snjókoma á flestum leiðum. Á Vestfjörðum er hálka og hálkublettir.

Á Norðurlandi er hálka á Vatnsskarði og á Öxnadalsheiði og á Norðaustur- og Austurlandi er hálka og snjóþekja. Á Suðausturlandi er hálka milli Mýrdalssands og Skaftafells en annars staðar eru hálkublettir að sögn Vegagerðarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×