Innlent

Undirbúa umfangsmiklar aðgerðir

Stjórnvöld undirbúa umfangsmiklar aðgerðir í peningamálum á næstu dögum, samkvæmt heimildum Stöðvar tvö. Formenn stjórnarflokkanna funduðu um málið með bankastjórum Seðlabankans í gær, sem er meginástæða þess að þau komust ekki með áætlanaflugi á NATO fund í Búkarest og fóru með leiguflugi í morgun.

Geir Haarde forsætisráðherra og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir utanríkisráðherra komu til Búkarestar í Rúmeníu í morgun og hafa þar verið á fundum mestallan eftirmiðdaginn.

En í gær funduðu þau með bankastjórn Seðlabankans eftir ríkisstjórnarfund sem forsætisráðuneytið segir að hafi verið "mikilvægur".

Á fundunum voru, samkvæmt heimildum Stöðvar tvö, ræddar yfirvofandi aðgerðir í peningamálum. Ráðherrarnir tveir hafa undanfarið gefið sterklega í skyn hvers konar aðgerðir það geti verið. Geir Haarde segir þannig í við breska blaðið Financial Times í dag að stjórnvöld séu reiðubúin til að grípa inn í gjaldeyris- og hlutabréfamarkaði í því skyni að refsa alþjóðlegum vogunarsjóðum, sem hafi staðið fyrir árás á fjármálakerfi landsins.

Sérfræðingar sem Stöð tvö hefur rætt við segja afar ólíklegt að farið verði í umfangsmikil uppkaup á skuldabréfum eða hlutabréfum. Hins vegar vinna menn nú yfirvinnu í Seðlabankanum við að undirbúa samninga um aðgang að lausafé í erlendri mynt.

Í myndinni er að þar komi við sögu samningar við norrænu seðlabankana - sem eru reyndar fyrir hendi frá fyrri tíð - og við evrópska seðlabankann og Englandsbanka. Hér er um gríðarlegar upphæðir að ræða - en eins og sjá má af viðtalinu við Geir í Financial Times þá líta stjórnvöld á þetta sem glímu við spákaupmenn og skortsala, glímu sem íslensk stjórnvöld ætla að vinna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×