Innlent

Útgjöld til heilbrigðismála þrefaldast á aldarfjórðungi

MYND/Hari

Heildarútgjöld til heilbrigðismála hafa vaxið verulega síðasta aldarfjórðung eða úr ríflega 6,4 prósentum af landsframleiðslu í upphafi níunda áratugarins í um 9,2 prósent af landsframleiðslu á síðasta ári.

Fram kemur á vef Hagstofunnar að þetta samsvari til rúmlega 117 milljarða króna á verðlagi síðasta árs. Árið 1980 voru útgjöld til heilbrigðismála um 41 milljarðar á verðlagi síðasta árs þannig að heilbrigðisþjónustan hefur nær þrefaldast að magni á þessu tímabili. Heilbrigðisútgjöld á mann voru hins vegar um 377 þúsund krónur árið 2007 en 179 þúsund krónur í byrjun níunda áratugarins á verðlagi 2007 og hafa því ríflega tvöfaldast.

Hlutur heimilanna hefur aukist verulega

Eftir þessum mælikvarða reyndust útgjöldin hæst árið 2003 eða 10,4 prósent af landsframleiðslu. Af heildarútgjöldum til heilbrigðismála greiðir hið opinbera 96,8 milljarða króna og einkaaðilar 20,5 milljarða. Tölur Hagstofunnar sýna einnig að á rúmlega aldarfjórðungi hafa útgjöld hins opinbera til þessa málaflokks aukist úr 5,5 prósentum af landsframleiðslu í 7,6 prósent.

Á sama tíma hafa útgjöld heimilanna til heilbrigðisþjónustu tvöfaldast, úr 0,8 prósentum af landsframleiðslu í 1,6 prósent. Hlutur heimilanna hefur aukist verulega frá 1980 eða úr 12,8 prósentum af heildarútgjöldum í 17,5 prósent árið 2007. Hámarki náði hlutur þeirra árið 1998 er hann nam tæplega fimmtungi af heildarútgjöldum til heilbrigðismála.

Ísland í 10-11. sæti meðal OECD-ríkja

Heildarútgjöld til heilbrigðismála í ríkjum OECD voru að meðaltali níu prósent af vergri landsframleiðslu ríkjanna árið 2005 en mikill munur er á því hlutfalli milli einstakra ríkja.

Hér á landi voru heildarútgjöld til heilbrigðismála 9,5 prósent af vergri landsframleiðslu þetta ár en Norðmenn, Svíar og Danir vörðu hins vegar 9,1 prósent af vergri landsframleiðslu til heilbrigðismála árið 2005 en Frakkar aftur á móti 11 prósentum. Á þennan mælikvarða voru Íslendingar í 10.-11. sæti OECD-ríkjanna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×