Innlent

Tekið eitt og hálft ár að ganga frá einföldum málum

Það hefur tekið yfirlögregluþjóninn í Skagafirði allt að eitt og hálft ár að ganga frá einföldum málum, segir sýslumaður í áminningarbréfi. Út í hött, segir lögmaður yfirlögregluþjóns.

Stöð 2 sagði frá því í gær að sýslumaðurinn í Skagafirði, sem jafnframt er lögreglustjóri, hefði veitt Birni Mikaelssyni, yfirlögregluþjóni á Sauðárkróki, áminningu í sex liðum. Brot hans eru eftirfarandi samkvæmt gögnum frá sýslumanni:

1) Áminntur fyrir vanrækslu í starfi með því að hafa ítrekað vanrækt að framfylgja fyrirhuguðum átaksverkefnum á sviði umferðarmála.

2) Áminntur fyrir að tala óvarlega í sjónvarpsviðtali sem birtist á Rúv 5. október síðastliðinn, þar sem skilja mátti ummæli hans þannig (að mati sýslumanns) að ökumenn gætu ekið of hratt í umdæminu án þess að verða beittir viðurlögum.

3) Áminntur fyrir að hafa ekki sinnt starfskyldum sínum með því að sjá til þess að rannsóknum mála hjá lögreglu yrði lokið innan eðlilegs tíma. Jafnframt segir: „Einföld mál voru allt að einu og hálfu ári í meðförum lögreglu."

4) Áminntur fyrir óhæfilega framkomu með því að hafa gefið tilteknum lögreglumanni vilyrði um fyrirhugaðan framgang hans í starfi og launahækkun án samþykkis sýslumanns.

5) Áminntur fyrir óhæfilega og ósæmilega framkomu með því að tjá sýslumanni að tiltekinn lögreglumaður hefði færst undan að sinna lögmætum fyrirmælum yfirlögregluþjóns, en nokkur vitni voru hins vegar að því gagnstæða, segir sýslumaður.

Og í sjötta lagi er yfirlögregluþjónn áminntur fyrir að hafa hringt í háttsettan starfsmann Ríkislögreglustjóra og talað mjög niðrandi um lögreglumann á Sauðárkróki sem sýslumaður hafði mælt með í stöðu varðstjóra.

Björn Mikaelsson yfirlögregluþjónn vill ekki tjá sig um málið en lögmaður hans, Gylfi Thorlacius, segir að dómstólaleiðin verði farin til að ógilda áminninguna. Hann segist hafa starfað fyrir Landssamband lögreglumanna í 25 ár og hafi aldrei séð jafn ómálefnalega áminningu. Meint brot vegna umferðarátaksins sé út í hött og aðrir liðir áminningarinnar vægast sagt sérkennilegir.

Miklar væringar hafa verið innnan lögregluliðsins á Sauðárkróki undanfarið og verður nánari umfjöllun um stöðuna þar í kvöldfréttum Stöðvar 2.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×