Innlent

Bílum fjölgaði um sextíu þúsund á fimm árum

Lóa Pind Aldísardóttir. skrifar

Sextíu þúsund fleiri bílar eru á ferðinni í gatnakerfinu en fyrir fimm árum. Bílakaupgleði landsmanna hefur aukið tekjur ríkisins um tugi prósenta en í fyrra þénaði ríkissjóður rúmlega fimmtíu milljarðar af bílaflotanum.

Við verðum seint vænd um að taka umhverfisvernd fram yfir þægindin. Árið 2002 voru rösklega 180 þúsund bílar í landinu - en um áramót taldi bílaflotinn rúmlega 240 þúsund fararskjóta. Bílum fjölgaði því um tæplega 57 þúsund á sama tíma og landsmönnum fjölgaði um tæplega 25 þúsund. Það jafngildir því að hver nýr ríkisborgari hafi fengið sér 2,3 bíla.

Meðalbíll er fjórir metrar og ef bílunum sem bættust við flotann síðustu fimm árin yrði lagt á þjóðveg eitt myndi röðin ná nær alla leið frá Reykjavík til Blönduóss.

Og stærri floti drekkur meira bensín, sem aftur stækkar ríkissjóð. Bensínskattar skiluðu árið 2002 rúmum níu milljörðum - á núverandi verðlagi - úr bensíndælunum yfir í ríkissjóð. Í fyrra streymdu rösklega fimmtán milljarðar yfir í ríkissjóð, rúmum sex milljörðum meira en fimm árum áður.

En ríkið tekur líka sinn skerf af innflutningi og sölu bíla. Ríkið fékk tæpa 34 milljarða - á núverandi verðlagi - af flotanum árið 2002. en rúmlega rúmlega 53 milljarða í fyrra. Vaxandi bílafloti hefur því aukið tekjur ríkissjóðs um 20 milljarða á fimm árum. Ekki hefur þó enn verið hróflað við bensínssköttunum, sem eru rétt um helmingur lítraverðsins. Stjórnskipuð bensínnefnd hefur skilað tillögum um breytingar til ráðherra en þær hafa ekki verið kunngjörðar og beiðni fréttastofu um afrit af skýrslu nefndarinnar var hafnað í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×